Anne Darwin, eiginkona breska kajakræðarans sem „reis upp frá dauðum“ nýverið eftir að hafa horfið sporlaust fyrir fimm árum, mun mæta fyrir dómara í dag. Hún hefur verið ákærð fyrir blekkingar.
Lögreglan ákærði hana í gær fyrir að hafa með óheiðarlegum hætti tekið við tveimur peningagreiðslum að andvirði rúmlega 20 milljónum króna. Hún er sökuð um að hafa brotið af sér árið 2003. Reuters-fréttastofan greinir frá þessu.
Lögreglan greindi frá því í gær að eiginmaður hennar, John Darwin, sem hefur verið ákærður fyrir tryggingasvik, hafi látið vaxa sér skegg og notast við falskt nafn í þeim tilgangi að leyna því að hann væri enn á lífi.
Darwin, sem er 57 ára gamall, gekk inn á lögreglustöð í London í síðustu viku. Hann sagðist hafa þjáðst af minnisleysi sl. fimm ár eða þegar hann komst lífs af úr kajakslysi. Málið vakti mikla athygli á sínum tíma og í framhaldinu hófst víðtæk leit að Darwin.
Darwin mun sitja í gæsluvarðhaldi til 14. desember. Hann er sakaður um að hafa beitt blekkingum í hagnaðarskyni og fyrir að hafa sagt ósátt til að komast yfir vegabréf.
Lögreglan segir að verið sé að yfirheyra Anne Darwin, sem er 55 ára. Hún var handtekin, grunuð um fjársvik, á sunnudag þegar hún sneri heim til Bretlands frá Panama þar sem hún býr.