Rússneski herinn er nú með umfangsmiklar æfingar nálægt olíuborpöllum Norðmanna í Norðursjó. Að sögn norskra fjölmiðla hefur þetta valdið truflunum á ferðum þyrlna, sem flytja starfsmenn milli borpallanna og lands.
Á fréttavef Aftenposten kemur fram, að rússnesku flugmóðurskipin séu á alþjóðlegu hafsvæði. Norska loftferðaeftirlitið boðaði í dag takmarkanir á flugumferð á svæðinu vegna æfinganna og þurftu þyrlur frá Norsk Helikopter, sem voru á flugi, að snúa við vegna þessa.
Eitt skipanna, sem tekur þátt í æfingunum, er flugmóðurskipið Kuznetsov aðmíráll, sem er 300 metra langt. Norsk varðskip fylgjast með æfingunum. Talið er að rússnesku skipin séu á leið til Miðjarðarhafs.