Bandaríkjastjórn stendur í vegi fyrir samkomulagi á Balí, að mati Náttúruverndarsamtaka Íslands. Samtökin segja Evrópusambandið standa gegn Bandaríkjamönnum með Bretland og Þýskaland í broddi fylkingar.
Þessi ríki benda á nauðsyn þess að draga úr losun iðnríkja á næsta skuldbindingartímabili sem hefst 2013 til forðast 2°C hlýnun andrúmsloftsins.
Eitt helsta deiluefnið á loftslagsráðstefnunni er hvort iðnríki eigi að stefna að 25-40% samdrætti í losun gróðurhúsloftegunda fyrir 2020 miðað við frá árinu 1990, en Bandaríkin og Kanada vilja meiri sveigjanleika í samningum.
Anna Kristín Ólafsdóttir, aðstoðarkona umhverfisráðherra, sem er stödd á Balí, segir Bandaríkjamenn hafa staðið mjög fast á þessu, og að þeir hafa fengið talsverða gagnrýni á sig vegna þessa.
Anna bendir þó á að samningaviðræðurnar séu mjög flóknar þar sem hátt í 200 ríki séu að reyna að semja um niðurstöður sem varða mikla hagsmuni.
Anna segir iðnríki þurfa að taka forystu í málinu og að þróunarríki þurfi að koma að borðinu með einhverjum hætti. Hún segir viðræður snúast um hvernig unnið verði að tölulegum markmiðum um losun gróðurhúsloftegunda, sem þurfa að vera sett 2009, og hvaða skuldbindingar hver þjóð taki fyrir sig.
„Mikill vilji er fyrir hendi, allir viðurkenna að loftslagsbreytingar eru af manna völdum og að nauðsynlegt er að takast á við þennan vanda,“ sagði Anna.
Hún bætti við að flestir séu sammála um það að allir verði að takast á við vandamálið og að enginn einn megi koma í veg fyrir að samkomulag náist.
Gert er ráð fyrir að samningsviðræðum muni ekki ljúka fyrr en seint á morgun og e.t.v munu þær standa fram á laugardag.