Aðsókn að glæpagengjum ungra manna af innflytjendaættum eykst nú hratt í Kaupmannahöfn samkvæmt heimildum Jyllands-Posten. „Gengin stækka mjög hratt þessa dagana. Hér er um að ræða ungt fólk sem félagslega kerfið hefur svikið árum saman. Þetta mun leiða til aukningar á alvarlegum glæpaverkum á næstu árum,” segir Fahmy Almajid innflytjendaráðgjafi.
Hann segir morðið á 21 árs gömlum manni í Nørrebro aðfararnótt þriðjudags vera merki þess sem koma skal en maðurinn var meðlimur í svokölluðu Sjælør-gengi. Hann segir að gera megi ráð fyrir að morðsins verði hefnt bæði af genginu og fjölskyldu hins látna. Almajid segir einnig að dönsk yfirvöld hafa litið framhjá öllum viðvörunarmerkjum á undanförnum áratug.
Annar innflytjendaráðgjafi Mohammad Rafiq tekur í sama streng. „Hér er um að ræða stóran hóp ungmenna sem yfirvöld hafa aldrei náð til. Þetta fólk er tifandi tímasprengja sem við getum átt von á að verða mun meira vör við.” Þá segir hann enga von til þess að yfirlýsingar Lene Espersens dómsmálaráðherra um hertar refsingar gegn ofbeldisverkum muni hafa nokkur áhrif á þessa menn.