Rússneskur stjórnarandstæðingur settur á geðsjúkrahús

Rússneskur stjórnarandstæðingur var settur á geðsjúkrahús áður en mótmælaaðgerðir fóru fram gegn stjórnvöldum í aðdraganda þingkosninganna í Rússlandi í byrjun desember, að því er stuðningsmenn stjórnarandstæðingsins greindu frá í dag. Hann dvelur enn á sjúkrahúsinu.

Hann heitir Artem Basírov og er tvítugur. Tveir óeinkennisklæddir lögreglumenn handtóku hann 23. nóvember og fyrirskipuðu að honum skyldi haldið á geðsjúkrahúsi í Mari El í Mið-Rússlandi, en daginn eftir hugðust stjórnarandstæðingar efna til mótmælaaðgerða.

Handtaka Basírovs er ekki fyrsta tilvikið sem bendir til að stjórnvöld hafi tekið upp þá háttu, er tíðkaðist á tímum Sovétríkjanna, að vista andófsmenn á geðsjúkrahúsum.

Basírov er í flokki sem tilheyrir bandalaginu Annað Rússland, en það skipulagði svonefndar andófsmannagöngur víðsvegar um landið. Hann var á framboðslista Annars Rússlands.

Lögreglan hélt því fram að Basírov hafi ráðist á stúlku og komst að þeirri niðurstöðu að hann væri haldinn einhverjum geðsjúkdómi. Geðlæknaráð var sammála lögreglunni. Basírov var í einangrunarvist þar til í gær, að því er flokksbróðir hans greindi frá.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert