„Siðlaust að bjóða ESB-aðild fyrir Kosovo"

Vuk Jeremic, utanríkisráðherra Serbíu segir ekki koma til greina að Serbar fallist á sjálfstæði Kosovo gegn aðild að Evrópusambandinu. Þá segir hann að verði Serbum boðinn slíkur samningur muni hann líta á það sem örgustu móðgun. „Slíkt tilboð væri algerlega siðlaust og leiðtogar Evrópu eru heiðvirt fólk,” sagði hann. „Þeir hafa því ekki lagt fram slíkt tilboð.” Þetta kemur fram á fréttavef BBC.

 

Boris Tadic, forseti Serbíu, hefur hins vegar sagt að hann sé ekki tilbúinn til að rjúfa samskipti ríkisins við Evrópusambandið jafnvel þótt leiðtogar þess ákveði að styðja sjálfstæði Kosovo.

 

Leiðtogar Evrópusambandsins vinna nú að útfærslu hugmynda um umfangsmesta eftirlits- og uppbyggingarstarf sem sambandið hefur tekist á við. Hugmyndirnar eru miðaðar við það að yfirvöld í Kosovo lýsi yfir sjálfstæði og að Evrópusambandið taki að sér yfirumsjón uppbyggingar- og eftirlitsstarfa þar.

Samkvæmt heimildum Oana Lungescu, fréttamanns BBC, er í hugmyndunum gert ráð fyrir því að allt að 1.800 lögreglumenn, dómarar og saksóknarar fari til Kosovo á vegum sambandsins.  

Einnig er sagður töluverður stuðningur fyrir því innan sambandsins að Serbum verði undanþágur frá kröfum um aðild að sambandinu til að reyna að tryggja stöðugleika á Balkanskaga í kjölfar aðskilnaðar Kosovo frá Serbíu.

 

Töluverð andstaða er þó við það innan sambandsins að veita Serbum undanþágur frá aðildarkröfum og hafa yfirvöld í Hollandi m.a. lýst því yfir að þau séu andvíg aðildarviðræðum við Serbíu áður en yfirvöld þar í landi hafa framselt alla þá sem eftirlýstir eru af stríðsglæpadómstólnum í Haag og taldir eru dvelja í landinu.

 Þá hafa yfirvöld á Kýpur og Spáni, í Grikklandi, Slóvakíu og Rúmeníu lýst áhyggjum af því að stuðningur sambandsins við sjálfstæði Kosovo muni styrkja málstað aðskilnaðarsinna í öðrum ríkjum Evrópu.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert