Vel klæddur ráðherra í vanda

Myndband af Gucci- og Louis Vuitton-klæddum ráðherra að fordæma kapítalisma og rembast síðan við að útskýra hvernig fínu og dýru fötin hans samræmist sósíalískum stjórnmálaskoðunum hans hefur vakið mikla lukku í Venesúela.

Myndbandið sýnir Pedro Carreno innanríkisráðherra verða orða vant þegar fréttamaður grípur fram í fyrir honum og spyr hvort það sé ekki þversagnakennt að gagnrýna kapítalisma íklæddur Gucci-skóm og með bindi frá Louis Vuitton í París.

„Nei ég ... ég ... jú auðvitað,“ stamaði Carreno, en náði sér svo á strik og hélt áfram: „Það er ekki mótsagnakennt vegna þess að ég vildi að allt þetta væri framleitt í Venesúela svo að ég gæti keypt vörur framleiddar hér í stað þess að 95% af því sem við kaupum sé innflutt.“

Myndbandið hefur notið mikilla vinsælda á YouTube.

Þrátt fyrir að Hugo Chavez forseti hafi gert sitt besta til að innræta þjóðinni sósíalísk gildi er neysluhyggjan allsráðandi í landinu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert