Bandaríkin ekki sátt við samkomulagið

Grænfriðungar á ströndinni í Kuta á Bali eftir að loftslagsráðstefnunni …
Grænfriðungar á ströndinni í Kuta á Bali eftir að loftslagsráðstefnunni lauk í gær.

Talmaður Hvíta hússins í Washington greindi frá því í gærkvöldi að Bandaríkjastjórn hefði miklar áhyggjur af ákveðnum atriðum þess samkomulags sem náðist á loftslagsráðstefnunni á Balí í gær. Segir hann Bandaríkjastjórn ekki telja að þróuðu ríkin eigi ein að bera þungann af ráðstöfunum til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Þetta kemur fram á fréttavef Jyllands-Posten.

Samkomulag náðist á milli fulltrúa 180 ríkja á loftslagsráðstefnunni í Balí í gær eftir að samningafundir höfðu verið framlengdir um rúman sólarhring og samkomulag allt að því afskrifað. Í hinu endanlega samkomulagi segir að mikið skuli dregið úr losun gróðurhúsalofttegunda.  

Á ráðstefnunni var einkum deilt um þá tillögu Evrópusambandsins að iðnríkin stefndu að því að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda um 25-40% fyrir árið 2020, miðað við losunina eins og hún var 1990. Fulltrúar Bandaríkjanna og fleiri landa lögðust hins vegar gegn þessu og sögðu að hvert ríki fyrir sig ætti að ákveða hversu mikið það legði af mörkum í þessum efnum.

Í samkomulaginu er tillaga ESB ekki í megintextanum heldur vísað til hennar í neðanmálsgrein. Þá er það markmið að draga úr losuninni um 25-40% fyrir árið 2020 aðeins sagt ná til þeirra ríkja sem hafa staðfest Kyoto-bókunina. Bandaríkin eru því undanskilin þar sem þau eru eina iðnveldið sem hefur ekki staðfest bókunina

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert