Blaðakonu sem skrifar fyrir rússneskt tímarit sem er þekkt fyrir gagnrýna umfjöllun um stjórnvöld í landinu hefur verið meinað um að snúa aftur til Rússlands eftir vinnuferð til útlanda. Við vegabréfaskoðun á flugvellinum í Moskvu var henni tjáð að alríkisöryggislögreglan hefði fyrirskipað að hún fengi ekki að koma aftur til Rússlands.
"Ég fékk engar útskýringar. Enginn vildi segja til nafns. Þeir sögðu að ég gæti fengið skýringar í sendiráði Moldavíu í Moskvu," sagði blaðakonan, Natalya Morar, sem er moldavískur ríkisborgari, í viðtali við útvarpsstöðina Echo í Moskvu.
Morar sagðist telja að líklegasta skýringin á þessu væri að nýjasta greinin hennar fjallaði um það í smáatriðum hvernig nýafstaðnar þingkosningar hefðu verið fjármagnaðar af forsetanum.
Hún var að koma úr vinnuferð til Ísraels, og sögðu landamæraverði í Moskvu að hún yrði að fara til Moldavíu eða snúa aftur til Ísraels, þótt vegabréfsáritun hennar til Ísraels væri ekki lengur gild. Ekki hafa borist fregnir af því hvort Morar er enn á flugvellinum í Moskvu.