Greitt fyrir að snúa heim

Greint hefur verið frá því að breska heimavarnarráðuneytið hafi greitt 23.000 einstaklingum  sem sótt hafa um hæli í landinu allt að hálfri milljón íslenskra króna til að koma á fót fyrirtækjum í heimalöndum sínum.  

Þetta kemur fram á fréttavef BBC.Samkvæmt heimildum The Sunday Telegraph falla greiðslurnar undir áætlun, sem unnið hefur verið eftir undanfarin átta ár, með það að markmiði að hvetja hælisleitendur til að snúa aftur heim.

Áætlunin er að hluta til fjármögnuð með fé frá Evrópusambandinu og segir talsmaður heimavarnaráðuneytisins umræddu fé hafa verið vel varið.Þá segir talsmaður ráðuneytisins að það kosti breska ríkið andvirði tæplega einnar og hálfrar milljónar íslenskra króna að senda hvern einstakling nauðungan heim.

„Á síðasta ári fluttum við fleiri einstaklinga nauðuga úr landi en nokkru sinni fyrr. Við hikum ekki við að senda fólk nauðugt heim en þegar við getum sparað breskum þegnum eina og hálfa milljón á einstakling, þá gerum við það,” segir talsmaðurinn. „Styrkir til uppbyggingar heima fyrir eru ekki nýir á nálinni og þeir veita svigrúm til ráðningar fleiri starfsmanna í innflytjendaeftirlit.”

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert