Fleiri ferðamenn eru nú á leið til Betlehem til að halda þar jólin en þau undanfarin sjö ár sem liðin eru frá því að átök brutust út á ný milli Ísraela og Palestínumanna, að því er yfirvöld í borginni greina frá. Er reiknað með um 65.000 gestum í fæðingarkirkjuna nú um jólin.
Tiltölulega friðsamlegt hefur verið í samskiptum Ísraela og Palestínumanna undanfarið, og virðist það hafa sannfært kristna pílagríma um að óhætt sé að heimsækja Betlehem, en undanfarin ár hafa vígaferli hrætt marga í burtu.
Victor Bataraseh borgarstjóri sagði á fréttamannafundi að í síðasta mánuði hefðu 64.000 ferðamenn komið til Betlehem, en um jólin í fyrra hefðu ekki komið þangað nema um 16.000 ferðamenn.