Færeyski lögþingsmaðurinn Høgni Hoydal, sem situr einnig á danska þinginu fyrir Færeyjar, varð fyrir líkamsárás á hóteli í Björgvin í Noregi. Að sögn færeyskra blaða var það fullur Færeyingur, sem sló Høgna í andlitið með þeim afleiðingum að hann nefbrotnaði að öllum líkindum og fékk glóðarauga.
Færeyingarnir voru staddir í borginni vegna þess að flugvél færeyska flugfélagsins Atlantsflugs millilenti þar. Høgni segir við færeyska blaðið Dimmalætting, að hann ætli ekki að kæra árásina. Danska útvarpið veltir því fyrir sér hvort færeyska saksóknaraembættið muni taka málið upp að eigin frumkvæði.