Job Cohen, borgarstjóri Amsterdam, kynnti í dag ítarlega áætlun um að stemma stigu við vændi í borginni. Verður gluggunum í Rauða hverfinu, þar sem vændiskonur hafa setið, fækkað til muna og í staðinn koma veitingahús.
„Við ætlum að hreinsa til og fækka til muna gluggum vændiskvennanna og „kaffibúðum" (þar sem seld eru kannabisefni) og ódýrum veitingastöðum," sagði Cohen á blaðamannafundi.
Hann sagði, að vændi yrði ekki bannað alfarið í borginni en kynlífsþjónusta yrði bönnuð í ákveðnum götum og svæðum í miðborginni. Nú eru um 400 gluggar í Rauða hverfinu þar sem vændiskonur bjóða þjónustu og þeim verður fækkað um 2/3.
„Það er löngu tímabært að ráðast í þetta," sagði Lodwijk Asscher, aðstoðarmaður borgarstjórans. Þeir dagar eru liðnir þegar við leyfðum óaldarlýð að ríkja yfir miðborginni."