Bresk stjórnvöld hafa greint frá því að verktakafyrirtæki, sem ríkisstjórnin á í viðskiptum við, hefur glatað upplýsingum varðandi þrjár milljónir breskra ökunema. Þykir málið hið vandræðalegasta fyrir yfirvöld í landinu.
Bresk stjórnvöld greina frá þessu aðeins nokkrum vikum eftir að ríkisstjórnin viðurkenndi að hún hafi glatað tölvudiskum sem á voru viðkvæmar persónuupplýsingar um 25 milljónir Breta, en nöfn þeirra og kennitölur voru á diskunum. Með þessu varð um helmingur bresku þjóðarinnar berskjaldaður fyrir því að verða fyrir barðinu á svikahröppum, sem gætu nýtt sér þessar upplýsingar í óheiðarlegum tilgangi.
Íhaldsmenn hafa sakað stjórnvöld um vanhæfni vegna upplýsingaklúðursins. Þetta mál er eitt af mörgum mistökum sem hefur leitt til þess að stuðningur við Verkamannaflokkinn hefur minnkað mikið.
Ruth Kelly, samgönguráðherra Bretlands, sagði við breska þingið að verktakafyrirtæki í hafi greint frá því í maí sl. að harður diskur hafi horfið úr skrifstofubyggingu fyrirtækisins í Iowa í Bandaríkjunum.
Fram kemur á fréttavef Reuters að nöfn, heimilisföng auk annarra upplýsinga um rúmlega þrjár milljónir ökunema hafi verið á harða disknum. Kelly sagði hinsvegar að engar upplýsingar um bankareikninga eða greiðslukortanúmer væri að finna á týnda disknum.
Hún hefur beðið viðkomandi einstaklinga afsökunar.