George W. Bush Bandaríkjaforseti mun halda til Mið-Austurlanda í næsta mánuði, og verður þetta hans fyrsta för þangað. Markmið forsetans er að leggja sitt af mörkum til að koma á friði fyrir botni Miðjarðarhafs áður en hann lætur af embætti um þarnæstu áramót, að því er fulltrúi hans sagði í dag.
Á friðarráðstefnu sem Bush efndi til í Bandaríkjunum í síðasta mánuði féllust Ísraelar og Palestínumenn á að hefja friðarumleitanir, með það fyrir augum að stofnað verði sjálfstætt Palestínuríki síðla næsta árs, eða um mánuði áður en forsetaskipti verða í Bandaríkjunum.
Bush mun hitta að máli forseta og forsætisráðherra Ísraels og Palestínumanna. Hann mun ennfremur fara til fleiri landa í grenndinni.