Hvíta húsið fordæmir ekki árásir hers Tyrklands á liðsmenn Verkamannaflokks Kúrda, PKK, í norðurhluta Íraks enda hafi fregnir af árásunum verið misvísandi.
Talsmaður forsetaembættis Bandaríkjanna, Dana Perino, segir starfsemi PKK ógn við Tyrkland, Írak og Bandaríkin en tekur fram að Bandaríkjastjórn hafi hvatt stjórnvöld í Tyrklandi til þess að beita ekki fullum þunga gegn samtökunum.
Hún neitaði hins vegar að tjá sig beint um orð Massud Barzani, leiðtoga Kúrda í norðurhluta Íraks, um að 500 tyrkneskir hermenn hafi gert árás inn í landið í nótt. Stjórnvöld í Tyrklandi neita að staðfesta fregnir um innrás.