Hvíta húsið: Kastróbréfið „athyglisvert“

Hvíta húsið í Washington.
Hvíta húsið í Washington. AP

Bandaríkjastjórn segir bréf Fídels Kastrós, sem lesið var upp í kúbverska ríkissjónvarpinu í gær, vera athyglisvert. Í bréfinu gefur Kastró í skyn að hann muni láta af embætti og setjast í helgan stein. Bandaríkjastjórn segir hinsvegar að erfitt sé að ráða í það hvað Kastró hafi í raun átt við.

Í bréfinu sagði Kastró, sem hefur átt við veikindi að stríða, að það væri ekki í hans verkahring að sitja sem fastast á valdastóli og koma í veg fyrir að sér yngra fólk komist til valda.

Þetta var í fyrsta sinn sem hinn 81s árs gamli Kastró hefur talað um að hann muni mögulega setjast í helgan stein.

„Þetta var athyglisvert bréf,“ sagði Dana Perino, talsmaður Hvíta hússins. „Það er erfitt að átta sig á því hvað hann er að segja eða hvað það þýðir, það er hinsvegar ekki óvenjulegt,“ hefur Reuters-fréttastofan eftir Perino.

„Við höldum áfram að vinna að þróun lýðræðis á eyjunni og við trúum því að sá dagur muni brátt koma,“ sagði Perino jafnframt.

Í október sagði George W. Bush Bandaríkjaforseti í ræðu að ríkisstjórn Kastrós væri til skammar og að endalokum komin. Þá hvatti hann íbúa Kúbu til þess að krefjast þess að lýðræðislegir stjórnarhættir yrðu teknir upp.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert