Jihad-samtökin hóta Ísraelum hefndum

Ættingjar Majed Harazin, háttsetts liðsmanns Jihad-samtakanna syrgja við útför hans …
Ættingjar Majed Harazin, háttsetts liðsmanns Jihad-samtakanna syrgja við útför hans í dag. AP

Palestínsku Jihad-samtökin hafa heitið því að hefna fjögurra liðsmanna samtakanna sem létu lífið í loftárás Ísraelshers á Gasasvæðið í nótt. Þrettán Palestínumenn létu lífið í árásahrinu Ísraela í nótt en um var að ræða mannskæðustu árásir Ísraela  gegn Palestínumönnum í marga mánuði. Þetta kemur fram á fréttavef Ha’aretz. 

Samtökin segja að loftárás hafi verið gerð á mennina er þeir komu frá bænum í mosku í bænum Jabalya en samtökin hafa staðið fyrir tíðum flugskeytaárásum frá svæðinu yfir landamærin til Ísraels. Bílar, búnir hátölurum, hafa ekið um götur á Gasasvæðinu í morgun og heitið hefndum og vopnaðir liðsmenn samtakanna hafa skotið úr rifflum sínum upp í loftið. Þá hefur liðsmönnum samtakanna verið skipað að slökkva á farsímum sínum og losa sig við batteríin úr þeim. 

Haim Ramon, aðstoðarforsætisráðherra Ísraels, ver árásirnar í nótt. „Ég get sagt ykkur að árásir gegn ákveðnum mönnum á Vesturbakkanum haf dregið mjög úr fjölda hryðjuverkaárása,” sagði hann í útvarpsviðtali. „Og á Gasasvæðinu draga þær sannarlega úr flugskeytaárásum á Ísrael."

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert