Samtök verslunarmanna í Danmörku hafa sent frá sér yfirlýsingu þar sem fólk er vinsamlega beðið um að halda stillingu sinni og sýna verslunarfólki kurteisi í jólaversluninni. Þetta kemur fram á fréttavef Jyllands-Posten.
Í yfirlýsingunni segir að verslunarfólk megi búa við sífelldar kvartanir viðskiptavina síðustu dagana fyrir jól og að jafnvel sé skyrpt á það. Viðskiptavinir kvarta meðal annars undan löngum biðröðum, of fáu starfsfólki og röngum verðmerkingum.„Fólk er stressað og þegar jólin nálgast verður myndin ýktari en ella,” segir Lars Top, talsmaður HK Djursland-Kronjylland.
Starfsmannafélag Hótel og veitingamanna hefur einnig brugðist við jólastressi viðskiptavina með því að gefa út sérstakan upplýsingabækling fyrir félagsmenn þar sem þeim eru gefin góð ráð varðandi það hvernig best sé að koma fram við óánægða og æsta viðskiptavini.
„Fólk er skapstyggara og meiri hætta er á að það missi stjórn á sér. Þetta bitnar gjarnan á þjónustuaðilum,” segir Bjarne Toftegård, sem rannsakað hefur streitu.