Forysta danskra jafnaðarmanna sætir nú töluverðri gagnrýni í kjölfar úrslitanna í kosningunum sem fram fóru í landinu í nóvember. Fylgismenn flokksins virðist þó almennt sammála um að Helle Thorning-Schmidt, formaður flokksins, hafi staðið sig vel í kosningabaráttunni. Þetta kemur fram á fréttavef Jyllands-Posten.
Gagnrýnin mun helst ganga út á það að forystu flokksins hafi ekki tekist að vinna fylgi við hugmyndir sínar í velferðarmálum og er það m.a. rakið til þess að hún hafi ekki haft nógu mikið frumkvæði í umræðum um velferðarmál áður en boðað var til kosninga í landinu.
„Sú hugmynd að hægt sé að móta umræðuna og heyja kosningabaráttu á þremur vikum er ekki einungis röng heldur einnig mjög hættuleg fyrir stjórnmálaflokk,” segir Jens Jonatan Steen í leiðara tímaritsins Vision, sem er sjálfstætt rit danskra jafnaðarmanna.