Níu lönd bætast í hóp Schengen-landa á miðnætti í kvöld, löndin eru eru Eistland, Lettland, Litháen, Pólland, Slóvakía, Slóvenía, Tékkland, Ungverjaland og Malta. Nýju Schengen-ríkin fengu öll aðild að ESB árið 2004 auk Kýpur.
Hátíðahöld hafa verið skipulögð víða og var tímamótunum fagnað formlega m.a. í Ungverjalandi, Slóveníu og Tékklandi, en kanslari Austurríkis og Robert Fico, forsætisráðherra Slóvakíu fögnuðu með því að rífa niður landamærastöð milli landanna í dag.
Talsmenn þýsku lögreglunnar segjast hins vegar óttast að stækkun Schengen-svæðisins muni hrinda af stað glæpaöldu í landinu. Segja þýsk lögregluyfirvöld að stækkun svæðisins jafngildi því að bjóða glæpamönnum í heimsókn og að evrópskir borgarar muni búa við minna öryggi í kjölfarið.