30 ríki mótmæla hvalveiðum Japana

Ástralar fóru fyrir hópi 30 ríkja, sem lögðu í gærkvöldi fram formleg mótmæli gegn vísindahvalveiðum Japana í Suðurhöfum. Ástralar lýstu þó ánægju með, að Japanar skuli vera hættir við að veiða 50 hnúfubaka í vetur eins og upphaflega var áformað.

„Ástralska ríkisstjórnin telur víst, að engi trúverðug réttlæting sé fyrir því að veiða hvali og mun beita sér af afli fyrir því að Japanar hætti hvalveiðum," sagði  Stephen Smith, utanríkisráðherra Ástralíu í yfirlýsingu.

Japanski hvalveiðiflotinn er nú í Suðurhöfum þar sem til stendur að veiða 935 hrefnur og 50 langreyðar.  

Ekki var ljóst hvað fólst í mótmælunum, sem afhent voru japanska sendiherranum í Canberra í gærkvöldi en ásamt Ástralíu stóðu  Argentína, Austurríki, Belgía, Bretland, Brasilía, Chile,  Ekvador, framkvæmdastjórn Evrópusambandsins, Finnland, Frakkland, Grikkland, Holland,  Írland, Ísrael, Ítalía, Kosta Ríka, Króatía, Lúxemborg, Mexíkó, Mónakó, Nýja-Sjáland, Portúgal, San Marino, Slóvakía, Slóvenía, Spánn, Svíþjóð, Tékkland,  Úrúgvæ og Þýskaland að aðgerðunum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert