Bandaríska nefndin, sem rannsakaði aðdraganda hryðjuverkaárásanna á New York og Washington árið 2001, bað bandarísku leyniþjónustuna CIA um frekari upplýsingar um yfirheyrslur yfir meintum félögum í hryðjuverkasamtökunum al-Qaeda en var sagt, að nefndin hefði fengið allt sem til væri.
CIA tilkynnti nú í desember, að árið 2005 hefði verið eytt myndböndum sem tekin voru af yfirheyrslum yfir al-Qaedaliðunum Abu Zubaydah og Abd al-Rahim al-Nashiri. Talið er að á myndböndunum hafi sést þegar beytt var yfirheyrsluaðferðum, sem mannréttindasamtök skilgreina sem pyntingar.
Bandaríska blaðið The New York Times segir í dag, að formenn rannsóknarnefndarinnar hefðu á undanförnum dögum farið yfir gögn nefndarinnar og komist að þeirri niðurstöðu, að CIA hafi vísvitandi leynt gögnum.
Í minnisblaði frá Philip Zelikow, fyrrum framkvæmdastjóra nefndarinnar, segir að rannsaka þurfi hvort CIA hafi brotið lög með því að halda yfirheyrslumyndböndunum frá nefndinni.
CIA sagðist hafa verið innan ramma laganna þegar myndböndunum var eytt til að vernda þá starfsmenn stofnunarinnar, sem tóku þátt í yfirheyrslunum. Margir hafa hins vegar gagnrýnt stofnunina harðlega.