Danir fylgjast með rússneskum sprengjuflugvélum

Norsk F-16 þota fylgir rússneskum birni í sumar.
Norsk F-16 þota fylgir rússneskum birni í sumar. Reuters

Tvær danskar F-16 orrustuflugvélar voru sendar til móts við tvær rússneskar Tupolev sprengjuflugvélar, oft kallaðar birnir, sem birtust á ratsjá skammt frá mörkum danskrar lofthelgi í gærkvöldi. Rússneskar herflugfélagar hafa aldrei komið jafn nærri danskri lofthelgi fyrr.

Danir hafa skráð þrjú önnur slík tilvik í haust og vetur eftir að Vladímír Pútín, Rússlandsforseti, tilkynnti í ágúst að sprengjuflugvélar rússneska flughersins muni hefja á ný að fljúga langflug um alþjóðlegt flugstjórnarsvæði.

Bretar og Norðmenn hafa nokkrum sinnum á síðustu mánuðum sent orrustuflugvélar til að fylgjast með rússneskum sprengjuflugvélum. Þá hefur Ratsjárstofnun á Íslandi fylgst með slíkum vélum þegar þær hafa farið inn á íslenska loftrýmissvæðið.

Flugferðir rússneskra sprengjuflugvéla var alvanalegt á tímum kalda stríðsins en þeim var hætt árið 1992 vegna fjárhagsvandræða Rússlandsshers. 

Rússar hafa sagt, að vélarnar séu ekki búnar kjarnorkuvopnum og aðalmarkmið flugferðanna sé að þjálfa flugmenn. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert