Benedikt XVI páfi harmaði hin viðurstyggilegu hljóð vopnanna á ófriðarsvæðum heimsins þegar hann flutti árlegt jólaávarp sitt af svölum Péturskirkjunnar í Róm. Sagðist hann vona að leiðtogar heims hafi til að bera þá visku og hugrekki til að binda enda á stríðsátök.
Þúsundir manna komu saman í sólskininu á Péturstorginu til að hlýða á páfa flytja „Urbi et Orbi" ávarp sitt. Páfi hvatti mannfjöldann til að fagna fæðingu frelsarans og sagðist vona að hann færði frið og huggun öllum þeim sem lifa í myrkri fátæktar, óréttlætis og stríðsátaka.
Nefndi páfi sérstaklega Miðausturlönd, Darfur, Kongó, Afganistan, Pakistan, Sri Lanka og ríkin á Balkanskaga. „Megi Jesúbarnið færa huggun þeim sem þjást og megi það færa stjórnmálaleiðtogum visku og hugrekki til að leita að og finna mannúðlega, réttláta og varanlega lausn," sagði Benedikt.
Að venju flutti páfi jólakveðjur á 63 tungumálum, þar á meðal esperantó og latínu. Mannfjöldinn fagnaði páfa og hrópaði: Viva. Ávarpinu var sjónvarpað í um 100 löndum.
Benedikt, sem er áttræður, var klæddur gullbryddaðri og hvítri skykkju og með gullskreytt mítur á höfði. Hann söng einnig miðnæturmessu í Péturskirkjunni í gærkvöldi.