Tyrkneskar herflugvélar héldu í morgun áfram loftárásum á uppreisnarmenn Kúrda í Norður-Írak, annan daginn í röð. Talsmaður öryggissveita Kúrda sagði, að árásirnar í morgun hefðu verið gerðar á yfirgefin þorp og ekki væri vitað um skemmdir á byggingum.
AFP fréttastofan hefur eftir öðrum heimildarmanni, að árásirnar hafi verið gerðar á svæði sem kallað er Nirvorokan og er í Dohuk héraði.
Tyrkneskar herflugvélar hafa gert árásir undanfarna daga á bækistöðvar félaga í Verkamannaflokki Kúrdistans, PKK, sem hafa komið sér fyrir í Norður-Írak og gert árásir á Tyrki yfir landamæri ríkjanna. PKK hefur frá árinu 1984 barist fyrir sjálfstæðu ríki Kúrda á svæðinu.