Danske Bank bauð í dag þeim sem geta veitt upplýsingar um peningarán á dreifingarstöð bankans við Árósa í morgun, 200 þúsund danskar krónur, jafnvirði tæplega 2,5 milljóna íslenskra króna, fyrir upplýsingar sem gætu leitt til þess að ræningjarnir finnast.
Fjórir grímuklæddir menn óku pallbíl gegnum girðingu umhverfis dreifingarstöðina í Brabrand, yfirbuguðu tvo öryggisverði og héldu síðan á brott með peningapoka sem í voru 26,7 milljónir danskra króna, jafnvirði 330 milljóna íslenskra króna.
Eftir ránið flúðu ræningjarnir á gömlum Audi bíl sem fannst síðar yfirgefinn á Jótlandi.
Um er að ræða annan mesta ránsfeng í sögu Danmerkur. Árið 2000 var peningaflutningabíl rænt og ræningjarnir höfðu á brott með sér 41,5 milljónir danskra króna.