Lík Benazir Bhutto, fyrrverandi leiðtoga stjórnarandstöðunnar í Pakistan, hefur verið flutt af sjúkrahúsi og í flugvél sem mun flytja líkið til heimabæjar hennar, Larkana.
Mikill glundroði ríkti þegar verið var að flytja kistuna út úr sjúkrahúsinu. Kistan, sem er úr tré, er með gler- eða plastloki. Fólk gat því séð líkið sem var hulið hvítum klæði.
Bhutto var ráðin af dögum á kosningafundi í Rawalpindi í dag. Mikil reiði ríkir í landinu og hefur lögregla í nokkrum borgum þurft að beita táragasi til að dreifa mannfjölda.
Þjóðarleiðtogar um allan heim hafa fordæmt verknaðinn. Enginn hefur enn lýst ábyrgð á ódæðinu.
Hundruð syrgjenda hafa komið saman fyrir framan heimili fjölskyldu Bhutto í Larkana, og fer þeim fjölgandi að sögn sjónarvotta. Búast má við því að mikið fjölmenni verði viðstatt er Bhutto verður lögð til hinstu hvílu.