Drepið í sígarettunni á nýju ári

Franskir reykingarmenn fá að njóta sígarettunnar um áramótin. Annan janúar …
Franskir reykingarmenn fá að njóta sígarettunnar um áramótin. Annan janúar verða þeir hinsvegar að drepa í henni á öllum almenningsstöðum. Reuters

Bann við reykingum á frönskum krám, kaffihúsum, veitingahúsum og skemmtistöðum mun taka gildi 2. janúar nk. Að sögn franska heilbrigðisráðuneytisins fá franskir reykingarmenn hinsvegar tækifæri til að njóta reyksins er þeir fagna nýju ári. Annan janúar verða þeir hinsvegar að drepa í.

Bannið nær jafnframt til spilavíta og hótela. Þetta er viðbót við reykingarbann á almenningsstöðum sem tók gildi í febrúar sl. Í Bretlandi, Írlandi, Ítalíu og á Spáni er einnig búið að banna reykingar á almenningsstöðum.

Til stóð að bannið tæki gildi á nýársdag í Frakklandi en franska heilbrigðiseftirlitið hefur greint frá því að það muni ekki framfylgja banninu af krafti fyrsta dag ársins.

Fram kemur á fréttavef BBC að hver sá sem brjóti gegn reykingarbanninu geti átt von á 450 evru sekt, sem jafngildir um 41.000 kr. Þeir veitingahúsaeigendur sem horfa í gegnum fingur sér og leyfa fólki að reykja geta átt von á sekt sem nemur 750 evrum, sem jafngildir tæpum 70.000 kr.

Alls býr um 61 milljón í Frakklandi, þar af reykja um 13,5 milljónir Frakka að staðaldri.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert