Benazir Bhutto, fyrrum forsætisráðherra Pakistans, lést af völdum höfuðhöggs þegar hún rak höfuðið í þak bíls sem hún stóð í. Engar kúlur eða sprengjubrot fundust í líki hennar, að sögn innanríkisráðuneytis landsins.
Ráðuneytið hélt blaðamannafund í Islamabad í dag og sýndi þar m.a. myndband af Bhutto, sem tekið var rétt áður en hún hlaut áverkann. Myndbandið var mjög óskýrt. Sagði ráðuneytið ljóst, að hryðjuverkasamtökin al-Qaeda hefðu staðið fyrir sprengjuárásinni á kosningafund Bhutto í Rawalpindi og vildu með þessu stuðla að upplausn í landinu.
Javed Cheema, talsmaður innanríkisráðuneytisins, sagði að Bhutto hefði rekið höfuðið í sveif á lúgunni þegar hún leitaði skjóls þegar árásarmaður skaut þremur skotum að bíl hennar. Við það hefði höfuðkúpan brotnað.
„Hefði hún ekki komið út úr bílnum hefði hún ekki meiðst því enginn hinna, sem voru í bílnum, hlutu áverka," sagði Cheema.
Cheema sagði einnig, að leyniþjónusta Pakistans hefði hlerað símtal frá manni, sem talinn er hafa verið Baitullah Mehsud, leiðtogi al-Qaeda í Pakistan, þar sem hann óskaði herskáum liðsmanni til hamingju með dauða Bhutto.
Sagði talsmaðurinn, að óhrekjanlegar sannanir væru fyrir því að al-Qaeda og stuðningsmenn þeirra samtaka væru að reyna að grafa undan stöðugleika í landinu.
Á fundinum kom fram að pakstönsk stjórnvöld teldu, að hryðjuverkamenn áformuðu árásir á ýmsa framámenn í röðum stjórnmálamanna, þar á meðal Nawaz Sharif, fyrrum forsætisráðherra, sem nýlega snéri aftur heim úr útlegð.