Abdel-Razak al-Yahya, innanríkisráðherra í heimastjórn Palestínumanna, segir yfirvöld á palestínsku sjálfstjórnarsvæðunum nú vinna að því að leysa upp herská samtök Palestínumanna á Vesturbakkanum. Segir hann Al Aqsa samtökin sem eru tengd Fatah hreyfingu Mahmoud Abbas, leiðtoga Palestínumanna, vera á meðal þessara samtaka. Þetta kemur fram á fréttavef Ha’aretz.
„Al Aqsa samtökin eru ekki lengur til,” sagði hann í útvarpsviðtali í dag en í gær lýsti talsmaður samtakanna því yfir að þau hefðu staðið á bak við skotárás á þrjá Ísraela á Vesturbakkanum. Tveir Ísraelanna létu lífið í árásinni.
Yfirvöld á palestínsku sjálfstjórnarsvæðunum greindu frá því í dag að hópur manna hefði verið handtekinn vegna málsins og Salam Fayyad, forsætisráðherra heimstjórnarinnar vottaði aðstandendum hinna látnu samúð sína í dag. Þá sagði hann handtökur þeirra sem hlut áttu að máli sýna að yfirvöldum á palestínsku sjálfstjórnarsvæðunum sé full alvara með það að koma á lögum og reglu á Vesturbakkanum.