Fidel Castro Kúbuleiðtogi hefur skrifað þingi landsins bréf þar sem hann segist fram til þessa hafa verið einstaklingur sem hafi haldið fast um valdataumana en að lífið hafi breytt afstöðu hans. Þá hvetur hann þjóðina til að styðja bróður sinn Raul Castro, sem hann fól tímabundið völd í landinu árið 2006. Þetta kemur fram á fréttavef BBC.
„Það er grundvallarskylda mín að ríghalda ekki í völdin og að standa ekki í vegi fyrir ungu fólki heldur að miðla af reynslu minni og hugmyndafræði,” segir hann m.a í bréfinu.
Þetta er í annað sinn á skömmum tíma sem Castro, sem er 81 árs, þykir gefa í skyn að hann hyggist láta af völdum en hann hefur verið við völd frá árinu 1959.
Castro hefur ekki komið fram opinberlega frá því hann gekkst undir mikla aðgerð í meltingarvegi árið 2006 en nokkrar greinar eftir hann hafa verið birtar opinberlega.
Þingkosningar fara fram á Kúbu þann 20. janúar. Þingið kýs síðan þjóðarráðið sem Castro hefur leitt frá árinu 1976.