Dæmdum hryðjuverkamanni sleppt

David Hicks er hann yfirgaf Yatala öryggisfangelsið í Adelaide í …
David Hicks er hann yfirgaf Yatala öryggisfangelsið í Adelaide í morgun. AP

Ástrali sem var í haldi Bandaríkjahers í Guantanamo-búðunum í fimm ár og dæmdur fyrir hryðjuverkastarfsemi af bandarískum stríðsglæpadómstól í mars á þessu ári hefur verið látinn laus í Ástralíu. Maðurinn David Hicks, sem er 32 ára, var handtekinn í liði talibana í Afganistan árið 2001. Þetta kemur fram á fréttavef BBC. 

Hann er fyrsti maðurinn sem sakfelldur hefur verið í bandarískum stríðsglæpadómstól frá lokum síðari heimsstyrjaldarinnar. Hann gerði hins vegar samning um að játa sig sekan gegn vægum dómi og var dæmdur til sjö ára fangelsisvistar, sem mátti vera skilorðsbundin að fyrstu níu mánuðunum undanskildum. 

Hann var í kjölfarið framseldur til Ástralíu á grundvelli afplánunarsamnings ríkjanna og hefur setið af sér dóminn í Yalata-öryggisfangelsinu í Adelaide. Dómari í Ástralíu hefur skilgreint hann sem hættulegan og verður hann að gera grein fyrir sér þrisvar í viku og halda sig innandyra yfir nóttina.  Þá má hann ekki yfirgefa Ástralíu eða veita fjölmiðlum viðtöl fyrr en í mars. 

Hicks tjáði sig ekki er hann yfirgaf fangelsið í morgun og sagði lögfræðingur hans hann einfaldlega ekki nógu sterkan til þess. Lögfræðingurinn las hins vegar upp yfirlýsingu hans þar sem hann þakkaði áströlsku þjóðinni fyrir að fá sig heim og hét því að bregðast henni ekki.  

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert