Sakar Vesturveldin um að skapa hættulegt fordæmi

Míkhaíl Gorbatsjov.
Míkhaíl Gorbatsjov. Reuters

Míkhaíl Gorbatsjov, fyrrum leiðtogi Sovétríkjanna, sakar Vesturveldin um að skapa hættulegt fordæmi með því að hóta því að sneiða fram hjá öryggisráði Sameinuðu þjóðanna varðandi ákvörðunartöku um framtíð Kosovo.

„Það eru engin fordæmi fyrir þessu. Þá er enginn grundvöllur fyrir þessu, hvorki pólitískt eða siðferðislega séð,“ skrifar Gorbatsjov á forsíðu rússneska dagblaðsins Rossiyskaja Gazeta í dag.

„Hættulegt fordæmi hefur verið búið til á sviði alþjóðalaga og alþjóðaöryggis, sem getur bókstaflega leitt til sprenginga á mörgum svæðum í heiminum.“

Kosovo-Albanar hafa krafist sjálfstæðis frá Serbíu þegar í stað.

Vesturveldin í öryggisráði SÞ sögðu í síðustu viku að það væri tilgangslaust að reyna að halda áfram samningaviðræðum varðandi áætlun Kosovo, um að lýsa yfir sjálfstæði, þegar þeim mistókst að sannfæra Rússa í málinu. Rússar hafa neitunarvald í öryggisráðinu og eru nánir bandamenn stjórnvalda í Belgrad.

Gorbatsjov segir að með því að hafna frekari viðræðum á vettvangi SÞ séu Vesturveldin að færa ábyrgðina í hendur Evrópusambandsins og NATO.

„Í fyrsta sinn í sögunni munu tvær stofnanir ákveða framtíð ríkis, þ.e. Serbíu, sem tilheyrir hvorugu þeirra,“ segir fyrrum leiðtogi Sovétríkjanna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert