Nicolas Sarkozy Frakklandsforseti greindi frá því í dag að hann hefði gefið fyrirmæli um að stjórnamálasamband Frakklands og Sýrlands verði rofið uns hann hafi fengið staðfestingu á því að yfirvöld í Sýrlandi vilji stuðla að því að sátt náist um kjör nýs forseta í Líbanon. Þetta kemur fram á fréttavef Ha’aretz.
Sarkozy sagði eftir fund sinn með Hosni Mubarak Egyptalandsforseta í dag að hann iðrist ekki fyrri samskipta sinna við Bashar Assad Sýrlandsforseta en að nú sé kominn tími til að Sýrlendingar sýni hug sinn í verki fremur en orðum.
„Við getum ekki beðið lengur. Sýrlendingar verða að hætta að tala og sýna okkur fram á hlutina,” sagði hann. „Ég og undirmenn mínir, munum ekki eiga frekari samskipti við Sýrlendinga fyrr en við höfum séð sönnun þess að Sýrlendingar leyfi Líbönum að ná samstöðu um kjör forseta.”