Lögregla gagnrýnd vegna bankaráns

Lögregla í Danmörku sætir nú töluverðri gagnrýni vegna ránsins í dreifingarmiðstöð Danske Bank í Árósum á fimmtudag en þjófarnir komust undan með 26 milljónir danskra króna. Hefur það m.a verið gagnrýnt hversu seint yfirvöld á landamærum Danmerkur og Þýskalands fengu upplýsingar um ránið og hversu ónákvæmar þær upplýsingar voru . Þetta kemur fram á fréttavef  Jyllands-Posten.

Ole Madsen, lögreglustjóri á Austur-Jótlandi, segir að samband hafi verið haft við landamærayfirvöld á landamærum Danmerkur og Þýskalands innan nokkurra klukkustunda frá því ránið var framið en að á þeim tíma hafi ekki legið fyrir greinargóðar upplýsingar um ræningjana eða bifreið þeirra.

Þeim upplýsingum hafi verið komið til landamæraeftirlitsins og lögreglu í Þýskalandi þegar þær lágu fyrir. Hann staðfestir hins vegar að ekki hafi verið farið fram á að vegatálmar væru settir upp eða aðrar sérstakar aðgerðir á landamærunum vegna málsins.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert