Sonur Bhutto einungis formaður í orði

Feðgarnir Asif Ali og Bilawal eftir að Benazir Bhutto var …
Feðgarnir Asif Ali og Bilawal eftir að Benazir Bhutto var borin til grafar á föstudag. Reuters

Ákveðið var á fundi fram­kvæmda­stjórn­ar Þjóðarflokks­ins í Pak­ist­an að Bilawal Zar­dari, 19 ára gam­all son­ur Benaz­ir Bhutto verði form­leg­ur formaður flokks­ins en að Asif Ali Zar­dari, faðir hans, muni sjá um að stýra flokkn­um.  Zar­dari hvatti stuðnings­menn flokks­ins í ávarpi í dag til að sýna still­ingu og kjósa Þjóðarflokk­inn í vænt­an­leg­um þing­kosn­ing­um.

Bilawal sagði á blaðamanna­fundi eft­ir fund flokks­ins, að bar­átta Þjóðarflokks­ins fyr­ir lýðræði muni halda áfram af aukn­um krafti. „Móðir mín sagði alltaf, að lýðræði sé besta hefnd­in."

Stuðnings­menn flokks­ins hrópuðu: „Benaz­ir, prins­essa himn­anna," og „Bilawal, haltu áfram. Við styðjum þig."

Bilawal sagði, að faðir hans muni „sjá um" flokk­inn á meðan hann held­ur áfram námi sínu, en pilt­ur­inn er við nám í Oxfor­d­há­skóla á Englandi. Zar­dari sagði blaðamönn­um síðan að beina spurn­ing­um til sín þar sem son­ur hans væri á viðkvæm­um aldri.

Zar­dari hef­ur verið einn af helstu valda­mönn­um í þjóðarflokkn­um en han var um­hverf­is­ráðherra í síðari rík­is­stjórn Bhutto. Hann hef­ur einnig verið sakaður um víðtæka fjár­mála­spill­ingu.

Zar­dari til­kynnti að Þjóðarflokk­ur­inn muni taka þátt í þing­kosn­ing­um, sem boðaðar voru 8. janú­ar en verður hugs­an­lega frestað vegna morðsins á Bhutto. Hann hvatti Nawaz Sharif, fyrr­ver­andi for­sæt­is­ráðherra, til að hætta við áform um að sniðganga kosn­ing­arn­ar.

Þá hvatti Zar­dari einnig Sam­einuðu þjóðirn­ar og Bret­land til að veita aðstoð við rann­sókn á morðinu á Benaz­ir Bhutto og hvatti stuðnings­menn henn­ar, sem staðið hafa fyr­ir óeirðum um allt landið síðustu daga, til að sýna still­ingu. Yfir 40 manns hafa látið lífið í óeirðunum.

„Við mun­um hefna morðsins á Bhutto með lýðræðis­leg­um hætti eft­ir að við sigr­um í kosn­ing­un­um," sagði hann.

Asif Ali Zardari stýrir bænahaldi á fundi Þjóðarflokksins í dag.
Asif Ali Zar­dari stýr­ir bæna­haldi á fundi Þjóðarflokks­ins í dag. ZA­HID HUS­SEIN
Frá fundi framkvæmdastjórnar Þjóðarflokksins í dag.
Frá fundi fram­kvæmda­stjórn­ar Þjóðarflokks­ins í dag. Reu­ters
mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Erlent »

Fleira áhugavert
Loka