Innanríkisráðuneyti Sádi-Arabíu hefur staðfest að opinskár Sádi-arabískur bloggari hafi verið handtekinn og sé í haldi til yfirheyrslu.
Fram kemur á fréttavef New York Times að talsmaður innanríkisráðuneytisins í Sádi-Arabíu hafi ekki viljað gefa upp nákvæmar ástæður fyrir því að bloggarinn sé í haldi. Hann segir málið ekki vera öryggismál, en að málið varði brot á ákveðnum lögum ríkisins.
Bloggarinn Fouah al-Farhan var handtekinn á skrifstofu sinni 10.desember síðastliðinn og er enn í haldi. Tveim vikum fyrir handtöku sína skrifaði hann vinum sínum bréf og sagði þeim að hugsanlega yrði hann handtekinn.
„Mér var sagt að gefin hafi verið út opinber skipun frá háttsettum aðila í innanríkisráðuneyti þess efnis að rannsaka mig”, stóð í bréfinu sem hefur verið birt á bloggi hans.
Al-Farhan telur að hann hafi verið handtekinn vegna þess að hann bloggaði um pólitíska fanga í Sádi-Arabíu, og segir hann í bréfinu að yfirvöld telji hann vera að halda úti herferð fyrir þá á netinu.
Al-Farhan segist hafa verið beðinn um að skrifa undir afsökunarbeiðni vegna ummæla sinna, sem hann vildi ekki gera.
Síðan hann var handtekinn hafa vinir hans haldið áfram að blogga fyrir hönd hans undir fyrirsögninni „Frelsum Fouad.”
Al-Farhan bloggar um samfélagsmál og var orðinn einn vinsælasti bloggari í Sádi-Arabíu.