Stjórnvöld á Sri Lanka hafa ákveðið að segja upp vopnahléssamkomulagi við uppreisnarmenn Tamíl Tígra. Þau segja að stigvaxandi átök í landinu hafi í raun leitt til þess að samkomulagið sé ekki lengur í gildi.
AP fréttastofan hefur eftir Anura Yapa, ráðherra upplýsingamála, að ríkisstjórnin hefði einróma samþykkt tillögu Ratnasiri Wickramanayake, forsætisráðherra, um að rifta friðarsamkomulaginu, sem gert var árið 2002.
Stjórnvöld misstu þolinmæðina eftir að sprengja sprakk í dag í vegarkanti þegar rúta full af særðum hermönnum fór hjá en verið var að flytja hermenina á sjúkrahús í miðborg Colombo. 4 létu lífið og 24 særðust. Stjórnin kennir uppreisnarmönnum Tamíla um.
Þrátt fyrir að friðarsamkomulagið hafi verið í gildi hafa yfir 5000 manns látið lífið í átökum stjórnarhersins og uppreisnarmanna Tamíla á síðustu 2 árum.
AP segir, að Wickramanayake muni brátt tilkynna Norðmönnum formlega um þá ákvörðun um að slíta friðarsamkomulaginu. Samkvæmt samkomulaginu þurfa báðir aðilar að tilkynna uppsögn samkomulagsins með 14 daga fyrirvara.