Sorp og úrgangur hefur undanfarna daga hrannast upp víða í fátækari hverfum Napólí á Ítalíu. Talið er að um 2000 tonn af sorpi sé í haugum víða á götum og fyrir utan sorphauga sem anna ekki því magni sem borgin framleiðir. Slökkvilið slökktu elda í um 70 haugum af sorpi sem reiðir íbúar höfðu kveikt í á götum úti gær.
Sömu sögu var að segja í dag er slökkvilið þurftu að kljást mið 70 slíka elda á nýjan leik. Yfirvöld óttast að eiturgufur frá eldunum geti valdið miklum skaða.
Mannháir sorphaugar þar sem rottur leika lausum hala er víða að finna í Napólí eftir margra mánaða töf á opnun á gríðarstórri sorpeyðingarstöð sem átti að binda enda á vanda sem borgin hefur þurft að kljást við undanfarin 14 ár.
Yfirvöld hafa reynt að opna sorphauga sem búið var að loka vegna mengunar en fréttaskýrendur telja að mafíunni sé um að kenna.
Samkvæmt AFP fréttastofunni borgar mafían vörubílstjórum fyrir ólöglega losun á iðnaðarsorp úr verksmiðjum á Norður Ítalíu til að þurfa ekki að greiða fyrir losunina á löglegum sorpeyðingarstöðum.
Því hafi sorphaugar í Napólí mengast ótæpilega og þeim hefur þurft að loka og borgarbúar hafa enga leið til að losa sig við sorp.
Í grennd við Napólí er einnig að finna ólöglega sorphauga í holum sem sprengdar hafa verið í fjallshlíðar.