Forseti Kenýa, Mwai Kibaki átti í dag fund með nóbelsverðlaunahafanum og erkibiskupnum Desmond Tutu, en hann er kominn til Kenýa til þess að reyna að koma á sáttum vegna úrslita forsetakosninga sem fram fóru í landinu þann 27. desember. Skálmöld hefur ríkt í landinu frá því að úrslit kosninganna voru kynnt og eru að minnsta kosti 300 látnir í átökunum og yfir 100 þúsund mannns hafa flúið heimili sín.
Ekki hefur verið gefið upp hvað kom fram á fundi Kibaki og Tutu en þeir hittust á skrifstofu þess fyrrnefnda í Nairobi. Í gær átti Tutu fund með leiðtoga og forsetaframbjóðanda stjórnarandstöðunnar, Raila Odinga, en hann segist hafa verið rændur sigri í forsetakosningunum.