Huckabee og Obama sigruðu

Mike Huckabee og Barack Obama sigruðu í forkosningunum í Iowa í Bandaríkjunum sem fram fóru í nótt. Niðurstöðurnar þykja nokkuð óvæntar og gætu haft afleiðingar í för með sér í þeim forkosningum sem framundan eru.

Demókratinn Obama sigraði örugglega með 37,58% atvæðum og sigraði þannig John Edwards, sem fékk 29,75% atkvæða. Hillary Clinton fékk 29,47% atkvæða, sem hlýtur að teljast óvænt þar sem hún hefur yfirleitt mælst með svipað eða meira fylgi og Obama í könnunum.

Repúblikaninn Mike Huckabee fékk 34% atkvæða í forkosningum repúblikana en Mitt Romney 26%. Niðurstöðurnar þykja áfall fyrir Romney sem eytt hefur tugum milljóna dala í kosningabaráttu sína.

Niðurstöðurnar í Iowa hafa takmarkað gildi þar sem kjósendur í ríkinu eru tiltölulega fáir. Þær eru þó sagðar hafa táknrænt gildi og geta orðið sigurvegurunum lyftistöng í mikilvægari forkosningum sem framundan eru.  

Þá vekur athygli að þátttaka var með mesta móti. 220.000 demókratar tóku þátt í kosningunum, en voru 124.000 árið 2004. Þá tóku 110.000 repúblikanar þátt, en voru 90.000 árið 2000 þegar síðast voru forkosningar um frambjóðanda flokksins.

Næstu forkosningar fara fram í New Hampshire þann 8. janúar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert