Sextán ára gamall sænskur drengur, sem fékk flugeld í andlitið í Karlskrona í Svíþjóð á nýársnótt, lést í nótt af sárum sínum á sjúkrahúsi í Lundi. Drengurinn fékk mikla áverka á höfði og í andliti þegar flugeldurinn sprakk.
Lögregla rannsakar nú slysið, sem varð í almenningsgarði í Karlskrona. Þar mistókst að skjóta stórum flugeldi upp og þegar drengurinn og bróðir hans komu á svæðið laust eftir miðnættið reyndu þeir að skjóta flugeldinum á loft. Eldri bróðir drengsins gafst upp eftir nokkrar tilraunir og hafði snúið frá þegar flugeldurinn sprakk skyndilega í andlit bróður hans.