Kardínáli í Páfagarði hefur óskað eftir því að kaþólikkar víðs vegar um heim biðji fyrir fórnarlömbum kynferðislegs ofbeldis af hálfu presta. Þetta kemur fram í viðtali sem verður birt í dagblaði Páfagarðs, L'Osservatore Romano, á morgun.
Segir hann að það megi hins vegar ekki gleyma því að það eru einungis fáir prestar sem hafa tekið þátt í slíku óhæfuverki. Hlutfallið sé innan við 1% sem hafa tekið þátt í andlegu og líkamlegu ofbeldi.
Hummes, sem hefur yfirumsjón með starfi presta víðsvegar um heiminn, hefur sent kaþólskum biskupum bréf þar sem hann biður þá um að sérstakar bænastundir verði haldnar fyrir fórnarlömb óhæfuverka af hálfu kaþólskra presta í heiminum.