Komið hefur í ljós, að Gro Harlem Brundtland, fyrrverandi forsætisráðherra Noregs, þarf ekki að greiða skatt af nærri 7 milljóna íslenskra króna árlegum eftirlaunum sem hún fær frá norska ríkinu. Brundtland býr nú í Frakklandi og þarlend skattalög gera ekki ráð fyrir að skattar séu greiddir af opinberum eftirlaunum.
Brundtland flutti til Nice fyrir fjórum árum ásamt eiginmanni sínum, Arne Olav Brundtland. Norska blaðið VG segir frá því í dag, að samkvæmt tvísköttunarsamningi, sem Frakkar og Norðmenn gerðu árið 1980 eru borgarar landanna skattlagðir í því landi sem þeir búa og eftir þarlendum reglum. Franskar skattareglur gera hins vegar ekki ráð fyrir því að opinber eftirlaun séu skattlögð og því hefur Brundtland ekki þurft að greiða skatt af norsku eftirlaununum.
Brundtland segir við blaðið, að hún hafi ekki vitað af þessum reglum þegar hún flutti til Nice og það hafi komið henni mjög á óvart þegar lögmaður hennar benti henni á þetta.
VG segir að norska fjármálaráðuneytið ætli að skoða málið. Þá hefur blaðið eftir Kåre Willoch, sem einnig er fyrrverandi forsætisráðherra Noregs, að norskum þjóðarleiðtogum beri skylda til að vera öðrum fyrirmyndir í skattamálum.