Mikið snjóar nú í Skandinavíu en í Ósló hefur óvenjulegt vandamál komið upp því þó að snjóruðningstæki hafi vart undan að hreinsa vegi af þeim snjó sem fellur af himnum ofan þá hafa snjóvélar skapað tafir og usla með því að úða gervisnjó á veginn sem liggur að skíðabrekkunum í Tryvann í grennd við Ósló.
Margar snjóvélar sprautuðu snjó yfir Øvreseterveien sem liggur upp að skíðasvæðinu. Aftenposten hefur eftir lögreglunni í Ósló að þeim þyki nógu mikið fyrir því haft að ryðja þann snjó sem fellur með eðlilegum hætti og að óþarfi sé að bæta 40 sm ofan á hann með þar til gerðum snjóvélum.
Margi leggja nú leið sína í skíðabrekkuna en talið er að vindur hafi snúið snjóvélunum þannig að þær hófu að úða snjó á veginn í stað skíðabrekkunnar.