Talsmaður al-Qaida, Bandaríkjamaðurinn Adam Gadahn, hvatti hryðjuverkamenn til þess í dag til að ráðast til atlögu gegn forseta Bandaríkjanna, George W. Bush, er hann sækir Miðausturlönd heim síðar í vikunni. Þetta kemur fram á nýju myndbandi sem Gadahn birti í dag.
Adam Gadahn er 28 ára gamall og er talið að hann hafist við á svipuðum slóðum og bin Laden, í fjallahéruðum á mörkum Afganistans og Pakistans. Gadahn hefur komið fram í mörgum myndböndum al-Qaeda og m.a. fordæmt hnattvæðingu. Hann er sagður stýra fjölmiðlaáróðri samtakanna gagnvart enskumælandi fólki.
Gadahn skrifaði á unglingsárum dóma fyrir tímarit sem fjallar um þungarokk. Hann fluttist til Pakistans árið 1998 og varð aðstoðarmaður Khalid Sheikh Mohammed, sem talinn er hafa verið aðalskipuleggjandi hryðjuverkaárásanna 2001.