Obama leiðir í New Hampshire

Nýjar skoðanakannanir benda til þess, að Barack Obama fari með sigur af hólmi í forkosningum demókrata í New Hampshire á þriðjudag. Samkvæmt könnununum mælist fylgi Obamas allt að 10 prósentum meira en Hillary Clintons en til þessa hefur Clinton notið meira fylgis í ríkinu.

Samkvæmt könnun Rasmussen stofnunarinnar, sem Sunday Times segir frá í dag, mælist fylgi Obamas nú 37% í New Hampshire en fylgi Clintons 27%. Könnunin var gerð daginn eftir forvalið í Iowa á föstudag þar sem Obama vann en Clinton lenti í þriðja sæti.

Önnur könnun, sem sjónvarpsstöðin CNN og útvarpsstöðin WMUR létu gera, bendir til að fylgi þeirra Obamas og Clintons sé jafnmikið, 33% meðal líklegra þátttakenda í forkosningunum. Hefur fylgi Obamas aukist um 4 prósentur frá samskonar könnun í desember en fylgi Clintons minnkað um 1 prósentu.

Í könnun blaðsins Concord Monitor mælist fylgi Clintons 34% en Obamans 33%.

Á kosningafundi í gærkvöldi reyndi Clinton að ná frumkvæðinu að nýju og sakaði Obama um að vera sjálfum sér ósamkvæmur í afstöðu til lykilmála. Þá væri hann óreyndur og meira maður orða en gerða. Obama vísaði þessu á bug og sagði mikilvægt að frambjóðendur reyndu ekki að afflytja stefnumál hver annars.

Meðal repúblikana nýtur John McCain örlítið meira fylgis í New Hampshire en þeir Mitt Romney og Mike Huckabee. Romney fór með sigur af hólmi í forvali Repúblikana í Wyoming í gær, sem vakti litla athygli, og Huckabee sigraði í forvalinu í Iowa.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert