Þúsundir mótmæla í Georgíu

Áhangendur Mikhail Saakashvili fögnuðu úrslitunum en þúsundir andstæðinga hans mótmæla …
Áhangendur Mikhail Saakashvili fögnuðu úrslitunum en þúsundir andstæðinga hans mótmæla nú í miðborg Tbilisi. Reuters

Um 4 - 5 þúsund manns hafa safnast saman í miðborg Tbilisi, höfuðborg Georgíu og mótmæla því sem þeir telja að séu falsaðar útgönguspár úr kosningunum í gær. „Lögreglan er með einhvern viðbúnað en hún er ekki mjög sýnileg og mótmælin virðast vera fremur friðsamleg enn sem komið er,” sagði Halla Gunnarsdóttir blaðamaður sem er stödd við kosningaeftirlit í Georgíu.

„Ég má lítið segja um kosningarnar, það verður blaðamannafundur hjá ÖSE (Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu) innan tíðar,” sagði Halla. Hún bætti því við að þátttakan í kosningunum hefði einungis verið á bilinu 50 til 60%.

Einungis er búið að telja um 7% atkvæða en samkvæmt útgönguspám  sigraði  Mikhail Saakashvili með 52% greiddra atkvæða en Levan Gachechiladze, helsti leiðtogi stjórnarandstöðunnar, fékk 28,5%.

Það er mjög kalt í Georgíu núna, það hefur snjóað mikið upp á síðkastið og fólk átti að sögn Höllu víða erfitt með að komast á kjörstað vegna ófærðar.

„Þetta eru mjög mikilvægar kosningar fyrir Georgíu, það er stutt síðan rósarbyltingin var framin 2003 og einungis einar kosningar síðan og það má segja að framtíð lýðræðisins sé í húfi,” sagði Halla sem er ein af 300 eftirlitsmanna á vegum ÖSE og segir hún að frá öðrum samtökum séu um 700 eftirlitsmenn til viðbótar sem fylgjast einnig með kosningunum.

„Hér eru jól hjá rétttrúnaðarkirkjunni og það má því spyrja sig hvort fólk ætli að nota jóladag í mótmæli, það gæti sett strik í reikninginn," bætti Halla við að lokum. 

Mjög kalt er í Tbilisi þessa stundina.
Mjög kalt er í Tbilisi þessa stundina. Reuters
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert