Pervez Musharraf, forseti Pakistans, hefur ítrekað fyrri yfirlýsingar um að Benazir Bhutto, fyrrum forsætisráherra landsins hafi sjálf borið ábyrgð á því að hún var ráðin af dögum í lok síðasta mánaðar. Þetta kemur fram á fréttavef CNN.
„Ég tel að henni sé einni um að kenna fyrir að hafa staðið upp í bílnum. Henni og engum öðrum. Ábyrgðin er alfarið hennar,”segir forsetinn í viðtali sem sýnt var á CBS- sjónvarpsstöðinni í Bandaríkjunum í gær. „Hefði hún ekki komið út úr bílnum, sem var verndaður og brynvarinn gæti hugsast að við sæjum brosandi andlit hennar aftur í dag.
Musharraf var einnig spurður að því í viðtalinu hvort hugsanlegt væri að Bhutto hefði orðið fyrir skoti og svaraði hann því: „Já algerlega, já mögulega,” en yfirvöld í Pakistan héldi því fram á tímabili að Bhutto hefði látist vegna höfuðhöggs sem hún hlaut er hún rak höfuð sitt í sveif á bílnum sem hún var í.Yfirvöl í landinu segja nú óljóst hvað olli dauða Bhutto í borginni Rawalpindi þann 27. desember en sprenging varð skammt frá bíl hennar auk þess sem myndir sýna að skotvopnum var beint í áttina að henni skömmu fyrir sprenginguna.
Musharraf vísar því alfarið á bug í viðtalinu að yfirvöld hafi ekki gert nóg til að tryggja öryggi Bhutto. Hún hafi notið meiri öryggisgæslu en nokkur annar einstaklingur í landinu og það megi m.a sjá á því að hún hafi áður sloppið ómeidd frá mannskæðu sprengjutilræði